152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

loftslagsmál.

[14:31]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. 90% allrar losunar í íslenska hagkerfinu kemur frá fimmtungi atvinnugreina sem standa undir fjórðungi framleiðslunnar. Verkefnin eru stóru verkefnin. Þau eru í samgöngum, þau eru í landnotkun og þau eru í úrgangsmálum, svo dæmi séu tekin. Þó að 55% sjálfstætt landsmarkmið um samdrátt í losun sé góðra gjalda vert þá er mjög margt sem bendir til þess að það dugi ekki svo við getum staðið við skuldbindingar okkar og gert okkar til að hlýnun jarðar fari ekki yfir 1,5°C á þessari öld. Við höfum nefnilega og á undanförnum árum, á síðasta áratug, í boði ríkisstjórnar Íslands, misst af stórkostlegum tækifærum til að hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og við stöndum núna árið 2022, 15 árum eftir að það voru með óyggjandi hætti færð vísindaleg rök fyrir því hver áhrif losun gróðurhúsalofttegunda væru og erum að hugsa um að uppfæra aðgerðaáætlun nr. 2. Við þurfum að gera svo miklu betur. Hvar er fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar? spyr ég. Allar fjárfestingar, allar opinberar fjárfestingar þurfa að vera grænar. Þær þurfa allar að stuðla að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Við þurfum líka, frú forseti, að hafa í huga núna á þessu vori að allar aðgerðir í loftslagsmálum þurfa að vera vinnumarkaðsaðgerðir. Við verðum að standa að réttlátum umskiptum, tryggja afkomuöryggi, ný, góð og græn störf og mótvægisaðgerðir fyrir launafólk þannig að skattlagning á launafólk sé ekki aðalbyrðarnar sem bera þarf í þessu landi vegna samdráttar í losun. Setjum ábyrgðina þar sem hún á heima. Hættum baunatínslunni og förum í stóru verkefnin.