152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

loftslagsmál.

[14:43]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram en mér finnst nauðsynlegt að við nefnum í því samhengi að við Íslendingar sem þjóð höfum verið að gera býsna margt og merkilegt mjög lengi, lengur en flestar aðrar þjóðir og þá sérstaklega sé horft til þess hlutfallslega. Hitaveituvæðingin var náttúrlega grundvallarbreyting sem varð í þessum efnum fyrir áratugum síðan og hér framleiðum við hæsta hlutfall endurnýjanlegrar orku á byggðu bóli. Við framleiðum hér grænasta ál sem framleitt er nokkurs staðar í heiminum. Við verðum, held ég, einhvern veginn að ná að færa þessa umræðu yfir á það að við reynum að leysa þau vandamál sem leysa þarf með framförum og þróun í stað þess að horfa til þess að koma fram með síhækkandi álögur og þvingunaraðgerðir. Það mun aldrei ganga vel til lengri tíma því að þegar á reynir verða loftslagsmálin leyst með framförum og tækni, ekki skattheimtu og þvingunum. Ég vil bara hvetja hæstv. umhverfisráðherra og vil hrósa sérstaklega fyrir að nú þegar sé að koma fram mál hæstv. ráðherra er varðar betri nýtingu eldri virkjana. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt og hreinlega alveg ótrúlegt að regluverkið hafi verið með þeim hætti að hraðahindranir væru á hvað slíka uppfærslu varðar.

Ég kem inn á frekari atriði í seinni ræðu minni en við verðum, eins og ég segi, að reyna að koma þessari umræðu nær raunheimum. Við sjáum t.d. bara forsíðufrétt Fréttablaðsins í morgun þar sem segir að loftslagskvíði sé orðinn faraldur hjá ungu fólki. Það að loftslagskvíði sé orðinn faraldur hjá ungu fólki er ekki líklegt til að færa þessi mál til betri vegar, (Forseti hringir.) bara alls ekki, þvert á móti. Þá erum við ekki líkleg til að finna þær lausnir og útfærslur sem verða okkur að gagni.