152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

loftslagsmál.

[14:48]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir að opna þessa umræðu. Eins og kom fram í svari hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra er þegar hafin vinna við að ná háleitum markmiðum Íslands í baráttunni gegn loftslagsvánni. Nýtt ráðuneyti umhverfis-, orku- og loftslagsmála er gríðarlega mikilvægt skref til þess að lyfta loftslagsmálunum upp og halda utan um þau. En loftslagsmálin eru ekki einkamálefni eins ráðuneytis heldur þarf alla anga samfélagsins að borðinu til að halda áhrifum loftslagsbreytinganna í skefjum.

Orkumálin eru loftslagsmál. Það mátti heyra á umræðunni hér fyrr og tímabært að fleiri líti þannig á þau. Bæði erum við í algjörri sérstöðu í nýtingu á grænni orku innan lands en einnig getum við lagt alþjóðlegri baráttu gegn loftslagsvánni lið með framleiðslu á rafeldsneyti til útflutnings. Orkuskiptin verða eitt helsta framlag okkar til loftslagsmála og við þurfum að horfast í augu við þá staðreynd að þau útheimta meiri orku. Ríkisstjórnin hefur boðað að orkuskiptunum verði lokið fyrir 2040 og það kallar á átak í orkumálum. Þess vegna vekja fréttir um stóraukna brennslu á jarðefnaeldsneyti vegna orkuskorts mikinn ugg. Raforkuskorturinn gæti valdið 3,4% meiri losun að sögn hagfræðings Eflu. Það þýðir að sá árangur sem hlýst af minni losun vegna rafbílavæðingarinnar gæti þurrkast út á næstu mánuðum. Hæstv. loftslagsráðherra hefur boðað aðgerðir til að bregðast við þeirri stöðu og vil ég hvetja hann til dáða.

Við unga fólkið sem þjáist af loftslagskvíða vil ég segja að stjórnvöld eru að hlusta og það er yfirlýst markmið að fylgja vísindunum. Það er okkar hlutverk að lyfta kvíðanum af ykkur og það gerum við með því að stíga raunveruleg skref til að sporna gegn frekari loftslagsbreytingum. Það er líka okkar hlutverk að vera aldrei ánægð og því þurfum við alltaf að stíga fleiri og stærri skref.