152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

loftslagsmál.

[14:55]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Landsmarkmið Íslands í loftslagsmálum ætti að mínu mati að vera það að standa við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem Ísland hefur gengist undir, þá fyrst og fremst Kyoto-sáttmálann, tímabil hans er reyndar liðið, og Parísarsáttmálann. Það er grundvallaratriði. Þetta er alþjóðleg vá og það á að leysa þetta á alþjóðavísu. Ef maður les stjórnarsáttmálann og fer yfir hann þá virðist vera eitthvað allt annað uppi á teningnum. Þar á að vera best í heimi, það á að skara fram úr á öllum sviðum. Það er ekki að fara að gerast. Það má skrifa heila bók um það, eða lítinn bækling eins og gert var í ríkisstjórnarsáttmálanum, að við munum aldrei verða best í heimi allra heima þegar við stöndum ekki við alþjóðlegar skuldbindingar, svo það sé algerlega á hreinu. Við eigum að einbeita okkur að þessu markmiði og við þurfum að taka til gagngerrar endurskoðunar hvar við klikkum og hvar má gera betur. Varðandi orkuskiptin þá er rafbílavæðingin aðalatriðið. Eins og kom fram áðan í stuttu máli mínu þá tel ég ekki miklar forsendur varðandi smábátaflotann, ferjur eru sjálfsagður kostur, þ.e. að þær séu drifnar áfram með rafmagni, en ég hef kannað þetta aðeins með smábátaflotann og þar eru ekki forsendur til þess í dag, það vantar bæði hraða og kraft í bátana. Þetta er gríðarlegur kostnaður. Norðmenn eru farnir að styrkja þennan málaflokk aðeins og ég held að Íslendingar muni ekki gera það að neinu ráði sem skiptir máli. Ég tel að aðalatriðið sé, og stefna Flokks fólksins er sú, að aðgerðir Íslands í loftslagsmálum mega ekki bitna á fátæku fólki í landinu eða almenningi í landinu. Það er grundvallaratriði. Að það verði álögur á fólk gengur heldur ekki.

Við eigum að gera það sem við getum gert, að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar og byrja á rafbílavæðingu og nýta þann orkugjafa, (Forseti hringir.) hina gríðarlegu orku sem felst í ódýrri raforku sem er hrein raforka, ekki að selja upprunann úr landi, (Forseti hringir.) og nota það til að gera Ísland grænt og byrja á samgöngum að öllu leyti.

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill ítreka það við þingmenn að halda tímamörkin.)