152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

loftslagsmál.

[15:01]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Mig langar í þessari seinni ræðu minni að koma inn á orkuskipti í samgöngum. Við erum dálítið, finnst mér, í hlutverki maursins sem vill leiða hestahjörðina í þá átt sem hún er hvort sem er að fara þegar kemur að orkuskiptum hvað fólksbílaflotann varðar. Þetta er að gerast. Þetta ræðst auðvitað af þeirri þróun sem á sér stað hjá stóru framleiðendunum og við eigum bara að koma kerfinu hér heima þannig fyrir að við getum tekið á móti þessari þróun. Þetta mun gerast af sjálfu sér, þetta vandamál mun bara leysast. En þá eigum við ekki að þvælast fyrir eins og við gerðum t.d. síðastliðinn desember í einhverri furðuaðgerð sem sneri að því að tengiltvinnbílar væru orðnir sending úr neðra en 100% rafmagnsbílar væru það alls ekki. Ég nefni þetta hér, og hef oft komið inn á það úr þessari pontu á liðnu kjörtímabili, að mér þykir við oft festast í aukaatriðum, smáatriðum, í þessu tilviki í atriði sem mun að langmestu leyti ráðast af þróun utan úr heimi og við eigum að taka henni fagnandi.

En það er eitt og annað sem við getum haft raunveruleg áhrif á. Við getum ýtt mjög rækilega undir til að mynda aukna skógrækt með breytingu á landnotkun. Við getum áfram ýtt undir það að við séum að framleiða hér grænustu vöru ef borið er saman við t.d. sambærilega vöru sem framleidd er í Kína eða í öðru ríki þar sem kolabruni keyrir orkuframleiðsluna áfram. Þannig að ég hvet hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra til þess að hafa augun á þeim boltum sem geta raunverulega skilað sér í mark, (Forseti hringir.) í stað þess að fókusinn verði allur á orkuskipti í fólksbílaflotanum. Það er hlutur (Forseti hringir.) sem mun gerast að langmestu leyti af sjálfu sér.