152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[17:58]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er nú einu sinni þannig að ef við fundum með þeim sem vinna við þennan málaflokk, t.d. lögreglunni á Keflavíkurflugvelli, þá geta þeir upplýst okkur um mörg og margvísleg dæmi þess að verið sé að misnota þetta kerfi. Við eigum að hlusta á það vegna þess að við þurfum að laga það sem má betur fara í þessu kerfi. Hv. þingmaður spurði sérstaklega um hvaðan þeir væru sem væru að leita sér að vinnu. Það er nú einu sinni þannig að einstaklingar gefa það ekki upp, þegar þeir koma til landsins, að þeir séu að leita sér að vinnu. Það er því mjög erfitt að halda utan um þær tölur en reynslan hefur sýnt þetta. Hv. þingmaður talaði hér um hælisleitendur sem koma frá stríðshrjáðum löndum eins og Sýrlandi, og það er alveg rétt. En ástandið í Sýrlandi hefur skánað heilmikið og fólk sem bjó þar er að flytja aftur þangað.

Það hljóta að vera ástæður fyrir því að svona margir sækja um á Íslandi, miklu fleiri en annars staðar á Norðurlöndum miðað við höfðatölu. Það hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því. Lífskjör eru þau sömu hér og á öðrum Norðurlöndum. Það eina sem kannski ætti að fæla fólk frá því að koma hingað er veðrið, eins og nefnt hefur verið. Þetta sýnir að það þarf að laga kerfið og ég hef talað fyrir því og mun halda áfram að tala fyrir því. Ég hef alltaf talað fyrir því að það þurfi að laga þetta kerfi. Það er alveg ljóst að það gengur ekki til lengdar að við skerum okkur úr Norðurlöndunum hvað varðar fjölda umsókna og það stefnir í að þeim muni fjölga verulega eins og ég nefndi.