152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það er flókið að búa í örhagkerfi með örgjaldmiðil í veskinu. Gengissveiflur, vaxtabreytingar og línudansinn þar á milli er hvorki taktfastur né mjög skemmtilegur, hvað þá vinsamlegur í garð fólksins okkar og fyrirtækjanna. Verðbólgan bítur okkur flest en reyndar misfast. Hún bítur fólk sem hefur minna á milli handanna mun fastar. Langflestir Íslendingar eru uppteknir við að lifa af hver mánaðamót og hafa ekki mikinn tíma til að hugsa endilega dæmin til enda. Þau treysta þannig stjórnvöldum til að taka ákvarðanir og halda vel á boltanum, hvort sem um er að ræða ungt fólk sem er að koma undir sig fótunum og ákveða hvort það eigi að velja óverðtryggt eða verðtryggt lán, fasta vexti eða ekki, eða eldra fólk sem keppist við að reyna að búa til ævisparnað, finna öryggi. Ábyrgð stjórnvalda er því mikil.

Ríkisstjórnin hefur ekki beint stundað ábyrga efnahagsstjórn þegar kemur að þessu og hún hefur alls ekki viljað horfa til framtíðar. Löngu fyrir heimsfaraldur voru einnig teikn á lofti um rauðar viðvaranir í efnahagskortunum. Sá verðbólguvandi sem nú blasir við er að mörgu leyti, miklu leyti, heimatilbúinn. Þensluhvetjandi aðgerðir í húsnæðismálum og ég tala nú ekki um útþaninn ríkissjóð löngu fyrir Covid, þetta allt ýtir undir verðbólguna.

Að eiga þak yfir höfuðið er einn stærsti útgjaldaliður heimila. Greiðslubyrði er ólík eftir hópum samfélagsins. Mig langar til að varpa ljósi á stöðu stúdenta. Stúdentaráð birti nýverið skýrslu um stúdenta á húsnæðismarkaði. Þar kom m.a. í ljós að um 15% íslenskra stúdenta búa á stúdentagörðum og biðlistar eru langir. Rest er á almennum markaði en Menntasjóður miðar sín lán við að stúdentar leigi á stúdentagörðum sem er töluvert frá leiguverði á almennum markaði. Viðmiðin eru því skökk. Um 43% stúdenta lifa við íþyngjandi húsnæðiskostnað. Verðbólgan mun bíta þennan hóp fast, mjög fast.

Þessi sviðsmynd, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) vegur að hugmynd okkar allra um jafnt aðgengi til náms og því er mikilvægt að svara ákalli stúdenta um samtal við þau um kjör og aðstæður. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)