152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

um fundarstjórn.

[15:37]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til að taka undir með hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur. Auðvitað er það svívirðilegt að dómsmálaráðherra veiti því atbeina að ríkisstofnun fari ekki að lögum, að ríkisstofnun afhendi Alþingi ekki þær upplýsingar og þau gögn sem Alþingi á rétt á að fá. Það er með miklum ólíkindum, virðulegi forseti, að þetta sé enn í gangi eftir allar þær yfirlýsingar sem komið hafa fram um að þetta sé ekki ásættanlegt. Eftir allar þær yfirlýsingar sem komið hafa fram um að það standi til að gera eitthvað í þessu þá er staðan enn svona í dag. Ég vil líka, sem nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd, benda á að það er búið að rukka fólk, Útlendingastofnun er búin að taka gjald af fólki fyrir að vinna þessar umsóknir sem er svo bara ekkert verið að vinna. Hvers lags eiginlega er þetta? Þetta tel ég tilefni til þess að skoða í efnahags- og viðskiptanefnd. Hvernig getur ríkisstofnun tekið gjald fyrir þjónustu sem er svo ekki veitt? Þetta munum við skoða í nefndinni.