152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

um fundarstjórn.

[15:47]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. formanni allsherjar- og menntamálanefndar fyrir að koma hér upp og standa með okkur og sýna að þetta er þverpólitískt mál. Þetta snýst um virðingu Alþingis og hlutverk þess. En ég ætla að taka undir með öðrum sem hafa komið hér upp og sagt: Þetta er ekkert flókið, þetta er ekki flækjumál, það er ekkert flækjustig í gangi. Það er ekkert flókið við okkar umræður við Útlendingastofnun eða ráðherra. Þetta snýst um það að þau afhendi okkur gögn sem við erum búin að fara fram á að þau afhendi. Þetta er mjög einfalt mál.

Þá vil ég leiðrétta það sem virðist koma fram, ég veit ekki á hvaða vettvangi það kemur fram, hjá Útlendingastofnun, að þetta snúist eitthvað um vinnuálag hjá þeim. Það gerir það ekki. Það kemur fram í mjög skýrri yfirlýsingu, opinberri yfirlýsingu hæstv. ráðherra, um ástæður þessara tafa. Það er vegna þess að þau ætla ekki að afhenda gögnin. Það er ekki af því að það er svo mikið að gera hjá þeim. Þá vil ég bara vekja athygli á því að það eru komnar margar vikur síðan við fórum fram á þessi gögn og Útlendingastofnun sagði: Ókei, við afhendum gögnin. Það hefur ekkert gerst. Útlendingastofnun ber að óska eftir umsögn lögreglunnar um hverja og eina þessara umsókna, það er einhver tölvupóstur sem er sendur. (Forseti hringir.) Hann hefur ekki verið sendur, það hefur ekkert gerst. (Forseti hringir.) Vinnuálag hjá Útlendingastofnun kemur ekkert málinu við.