152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

um fundarstjórn.

[15:50]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil bara benda á að í greininni sem ég vísaði til áðan sakaði hæstv. dómsmálaráðherra þingmenn um að fara með rangt mál. Ég óska eftir því að ráðherra geri grein fyrir því hvar við fórum með rangt mál. Hvar var það?

Ég vil taka fyrir annað mál í þessu sem er það að ráðherrar og Útlendingastofnun eru hér í pólitík. Þau vilja breyta fyrirkomulaginu, eins og kom fram í ræðu áðan. Það er ekki þeirra hlutverk. Það er hlutverk Alþingis að breyta fyrirkomulaginu. Núverandi kerfi er tvöfalt kerfi þar sem ríkisborgararéttur er veittur annars vegar á Alþingi Íslendinga með lögum og hins vegar af Útlendingastofnun með stjórnvaldsákvörðun. Þetta er tilraun ráðherrans til að eyðileggja núverandi kerfi, þ.e. málsmeðferðina fyrir Alþingi. Það er það sem hann er að reyna að gera og ekkert annað. Hann er í pólitík. Það er með ólíkindum að ráðherra í ríkisstjórn Íslands, sem styðst við þingmeirihluta, skuli haga sér svona, algerlega með ólíkindum.