152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

skaðabótalög.

233. mál
[18:18]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Ég þakka hv. framsögumanni fyrir að hafa gert góða grein fyrir málinu sem hún leggur hér fram. Ég er í hópi meðflutningsmanna og kann hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur miklar þakkir fyrir að hafa átt frumkvæði að þessu máli. Ég styð markmið málsins heils hugar og lít svo á að hér sé fram komin ein af nokkrum leiðum sem þolendur hafa. Við erum auðvitað að horfa á réttarkerfið í samhengi við sakamál en líka í samhengi við einkamál og síðan held ég að samfélagið allt sé að opnast fyrir þeim veruleika að til eru margs konar leiðir til að gera þessi mál upp.

Ég nefni þetta með vísun í persónulega reynslu mína úr starfi. Ég hef upplifað það svo sterkt, hafandi reynslu úr meðferð sakamála, hversu rík sú þörf er hjá þolendum brota, ekki síst kynferðisbrota og hjá þolendum í heimilisofbeldismálum eða í málum sem varða ofbeldi í nánum samböndum, að fá viðurkenningu á því sem gerðist. Og það verður að segjast að það er mjög sterkt sérkenni á kynferðisbrotamálum, þegar þau eru borin saman við önnur sakamál, að sjaldnast liggur fyrir játning. Meira að segja í þeim málum sem fara í gegnum kerfið, meira að segja í þeim málum sem þó leiða til ákæru, í þeim málum sem þó leiða til sakfellingar, er viðurkenningin oftast nær af kerfisins hálfu en ekki af hálfu gerandans.

Við vitum það, eins og framsögumaður kom inn á, að tölurnar eru eins og þær eru um hlutfall þeirra mála sem leiða til ákæru. Mér finnst þó mikilvægt að halda því til haga að hlutfall þeirra mála sem leiða til sakfellingar eftir að ákæra er gefin út er fremur hátt, en það skiptir máli að opna fyrir aðrar leiðir. Ég vil líka setja þetta í samhengi við umræðuna sem á sér stað í samfélaginu núna og við höfum átt í núna í nokkur ár, #metoo-umræðuna, en til þess að ná utan um þessi brot — þó að stærsta markmiðið hljóti auðvitað alltaf að vera að ætla að koma í veg fyrir þau en ekki bara að bregðast við þeim — held ég að við þurfum að horfa á þetta eins og ég held að framsögumaður málsins sé að gera.

Það eru mörg skref sem þarf að stíga til að ná betur utan um þennan málaflokk. Sum eru stór, sum verða erfið, sum eru minni, önnur eru lítil en þó þýðingarmikil. Í því samhengi vil ég nefna málsmeðferðartímann sem ég þreytist ekki á að nefna. Ég held að hér sé fram kominn liður í mikilvægum réttarbótum og ég held að það sé mjög mikilvægt að nálgast þennan málaflokk, eins og raunar alla aðra sem heyra undir réttarkerfið, þannig að rétturinn sé lifandi, rétturinn sé stöðugur en taki breytingum og þroskist í takt við tíðaranda. Ég held að hér sé fram komið verkfæri til þess.

Ég velti því fyrir mér að þarna undir falla öll ákvæði kynferðisbrotakaflans og svo 218. gr. b sem varðar ofbeldi í nánum samböndum því að stundum er það þannig að mál eru engu að síður heimfærð undir 217 gr., jafnvel þótt um ofbeldi í nánu sambandi sé að ræða, eða 1. mgr. 218. gr., hv. þingmaður áttar sig á því hvert ég er að fara. Ég velti fyrir mér hvort það sé mögulega atriði sem þarfnist rýni upp á að það skipti ekki máli ef tengslin eru þessi hver heimfærslan er til refsiákvæða. En ég er ánægð með að sjá þetta mál og það er vitaskuld af þeirri ástæðu sem ég er meðflutningsmaður á því og þakka hv. þingmanni kærlega fyrir.