152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

skaðabótalög.

233. mál
[18:41]
Horfa

Flm. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og meðflutninginn. Mig langaði bara aðeins að koma inn á það, af því að hv. þingmaður talaði um kostnaðinn, að þetta snýst ekki síður um tilfinningar, þ.e. að kerfið sé ekki að reyna að gera allt sem það getur til að berjast gegn þér. Og hvað erum við að fjalla um hér? Við erum að fjalla um lögbundna gjafsókn í ákveðnum málum og Alþingi hefur áður ákveðið að veita lögbundna gjafsókn í nokkrum tilvikum í sanngirnismálum. Þegar einstaklingur sækir til að mynda bætur fyrir handtöku eða aðrar þvingunarráðstafanir af hálfu lögreglu, handtöku, húsleit, leit á einstaklingi eða slíkt, þá er gjafsókn lögbundin. Fólk á alltaf rétt á henni. Þegar um barnaverndarmál er að ræða er gjafsókn lögbundin og í lögræðismálum er gjafsókn einnig lögbundin. Stefnandi í ættleiðingarmálum skal hafa lögbundna gjafsókn og barn í faðernismáli sömuleiðis. Við sjáum alveg hvaða mál þetta eru. Þetta eru svona djúp réttlætismál þar sem löggjafinn hefur ákveðið að gera sitt til þess að færa a.m.k. þennan þröskuld.

Mér fannst ég knúin til að koma upp til að benda á hvaða mál þetta eru því að ég gerði það ekki sérstaklega í ræðu eða í greinargerð. Það er full ástæða til þess, sérstaklega á okkar tímum, þegar við erum loks að þora að opna á þessa umræðu og opna á þessi mál og viðurkenna að þau gerast alls staðar, að löggjafinn fylgi á eftir og fækki a.m.k. þröskuldum brotaþola.