152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

verkefni Landspítalans.

[10:36]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Já, guð láti gott á vita því að Viðreisn hefur lagt fram frumvörp til að breyta þessu, ítrekað, aftur og aftur. Þau fást ekki afgreidd. Og við höfum líka komið með tillögur í tengslum við fjárlög til þess að veita Sjúkratryggingum auknar heimildir til að semja við sjálfstætt starfandi aðila, hvort sem það er Klíníkin eða aðrir. Þessar tillögur okkar hafa alltaf verið felldar. Ítrekað hafa þingmenn meiri hlutans ýtt á rauða takkann og fellt þessar tillögur okkar, en þær fela í sér fyrst og fremst að bæta þjónustuna við einstaklingana, þjónustu við einstaklinga sem eru á biðlistum, þjónustu til að auka lífsgæði fólksins okkar í landinu samhliða því að við verðum að styðja með öflugum hætti við Landspítalann. Ég hvet ráðherra, af því að það er mjög opin heimild í heilbrigðisstefnu núna, til að taka þennan bolta og breyta kerfinu sem hefur verið byggt upp af Vinstri grænum með stuðningi ykkar á síðustu fjórum árum og snúa þessu svolítið við, tryggja fyrst og fremst þjónustu og leita til þeirra aðila sem geta stuðlað að því að við verðum með sterkt opinbert heilbrigðiskerfi (Forseti hringir.) sem veitir þjónustu alls staðar, hvort sem það er á opinberum heilbrigðisstofnunum (Forseti hringir.) eða hjá einkaaðilum, öflugum einkaaðilum hér í samfélaginu.