152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

áhrif takmarkana vegna Covid-19 á börn.

[11:08]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir tækifærið til að fá að eiga orðastað við hæstv. barnamálaráðherra um áhrif takmarkana vegna Covid-19 á börn. Ég vek athygli á því að umræðan snýr ekki að áhrifum veirunnar heldur að áhrifum aðgerða stjórnvalda síðastliðin tvö ár á börn. Í tæp tvö ár hafa þau sætt ítrekuðum takmörkuðum, röskunum á skólagöngu og íþrótta- og tómstundastarfi og einangrun frá vinum og vandamönnum. Þau hafa verið lokuð inni, meinað að fá sér frískt loft og verið þvinguð ítrekað í sýnatökur. Sum hafa jafnvel verið lokuð inni samtals í vikur eða mánuði. Börn hafa verið kvíðin og hrædd í tvö ár og það er langur tími í lífi barna.

Íslensk stjórnvöld eiga vissulega hrós skilið fyrir þá festu að halda skólastarfi sem minnst skertu og hæstv. barnamálaráðherra á sömuleiðis hrós skilið fyrir að halda á lofti sjónarmiðum um velferð barna og um nauðsyn skólahalds, sérstaklega fyrir börn í viðkvæmri stöðu, þegar þrýst var á um lokun grunnskóla. En þrátt fyrir það tel ég óhætt að fullyrða að það álag sem hefur verið lagt á börnin í faraldrinum er mjög alvarlegt mál.

Nýlega var slakað á ýmsum takmörkunum hér og vonir standa til þess að áfram verði haldið í þá átt. Loks kom að því að dregið var úr sóttkví og einangrun og líkamlegum inngripum með sýnatökum. Þótt sennilega megi þakka mildina er mikilvægt að þingheimur geri sér grein fyrir því að með breyttri nálgun, t.d. í sóttkví barna, var bara verið að stíga skref sem löndin í kringum okkur stigu fyrir löngu síðan. Ísland hafði lengi haft algjöra sérstöðu varðandi sóttkví barna í tengslum við útsetningu í skólum. Í þessi tvö ár hafa börn þolað þessar aðgerðir vegna sjúkdóms sem allar upplýsingar sem við höfum segja okkur að þeim stafi lítil hætta af, í það minnsta ekki meiri hætta en af ýmsum öðrum sýkingum.

Þess vegna, virðulegur forseti, spyr ég hæstv. barnamálaráðherra að því hvort áhrif þessara aðgerða stjórnvalda á börn hafi verið skoðuð sérstaklega og, þar sem hæstv. ráðherra hefur vakið athygli á stöðu barna sem búa við viðkvæmar aðstæður, hvort áhrifin á þau hafi verið skoðuð sérstaklega.

Það sem við vitum nú þegar um þetta langa tímabil síðastliðin tvö ár er að tilkynningum til barnaverndaryfirvalda um ofbeldi og vanrækslu á börnum fjölgaði mikið. Sú hræðilega staðreynd liggur fyrir að tilkynningum um kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum fjölgaði um heil 40% frá árinu 2020 til ársins 2021. Þetta eru sláandi tölur. Það er samfélagsleg ábyrgð okkar að vernda þá sem eru viðkvæmir og börn eru sannarlega viðkvæmur hópur. Tölurnar sem ég nefndi hér benda til þess að við höfum brugðist viðkvæmasta hópi samfélagsins. Börn sem hafa verið einangruð í skaðlegum aðstæðum heima fyrir munu aldrei bíða þess bætur.

Meðal þeirra reglna sem var nýlega breytt eftir tæplega tveggja ára framkvæmd voru reglur um sýnatöku barna en umboðsmaður barna hafði þá gert athugasemdir við framkvæmdina. Það var erfitt að fara með börn í langar raðir í sýnatöku og gráturinn í þeim var átakanlegur þegar sýni var tekið úr þeim til að hægt væri að losa þau úr sóttkví. Það liggur því beinast við að spyrja hæstv. barnamálaráðherra hvort áhrif af ítrekuðum sýnatökum barna við óviðunandi aðstæður hafi verið metin.

Sóttvarnayfirvöld hafa reglulega velt upp þeirri spurningu hver sé réttlætanlegur fórnarkostnaður þegar komi að mannslífum og veikindum vegna Covid-19. En nú að tveimur árum liðnum þurfum við að horfast í augu við það hver hafi verið fórnarkostnaðurinn af sóttvarnaaðgerðum stjórnvalda.

Virðulegur forseti. Þegar kemur að málefnum barna á samkvæmt lögum það sem er barni fyrir bestu alltaf að hafa forgang. Það getur ekkert annað trompað það. Því beini ég þeim spurningum að lokum að hæstv. barnamálaráðherra hvort hagur barna hafi alltaf verið hafður að leiðarljósi við ákvarðanatöku um sóttvarnaaðgerðir og hvort gætt hafi verið að meðalhófi.