152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

áhrif takmarkana vegna Covid-19 á börn.

[11:18]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Þetta er mikilvæg umræða um álag faraldursins á börn hér en ég ætla að horfa aðeins víðar og horfa á börn í fátækari ríkjum í heimsfaraldri. Dökk skýrsla UNICEF bendir til þess að Covid-19 hafi grafið undan áratuga framförum í þágu réttinda barna. Afleiðingin er aukin fátækt barna og skert aðgengi að menntun. Faraldurinn hefur orðið til þess að færri börn í þróunarlöndunum hafa fengið bólusetningu gegn öðrum alvarlegum sjúkdómum. Hann hefur einnig skert aðgengi þeirra að námi. Covid-19 hefur þannig ekki einungis aukið ójöfnuð innan landa heldur líka milli ríkari og snauðari þjóða. Heimsfaraldurinn sýnir hins vegar að hagsmunir jarðarbúa eru samofnir og við erum ein heimsfjölskylda.

Fyrir fólk um allan heim hafa bólusetningar verið vonarglæta á erfiðum tímum. Við Íslendingar þekkjum mjög vel hvað bólusetningar hafa haft jákvæð áhrif hér og eru núna forsenda þeirra afléttinga sem við stöndum frammi fyrir. Jafn aðgangur allra að bóluefnum ætti auðvitað að vera mikilvægt réttindamál og ríki heims, líka í okkar heimshluta, ættu að skilja hag af því að bólusetningar nái sem víðast. En því miður hefur reynslan sýnt að hvert ríki hefur fyrst og fremst hugsað um sjálft sig. Það hefur bitnað á fátækari ríkjum, ekki síst börnum þar. Þetta eykur auðvitað ekki aðeins hættuna á því að faraldur af þessum toga dragist á langinn heldur eykur ójöfnuð milli vestrænna ríkja og þeirra fátækari. Við berum nefnilega öll ábyrgð á öllum börnum, hvar sem þau búa í heiminum. Þetta ætti ríkisstjórnin, ekki síst barnamálaráðherra, að hafa í huga nú þegar horft er til framlags Íslands til þróunarsamvinnu sem er tæplega helmingurinn af því sem Sameinuðu þjóðirnar mæla með og við höfum tekið undir þau markmið.