152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

áhrif takmarkana vegna Covid-19 á börn.

[11:34]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Virðulegi forseti. Ég byrja á því að þakka málshefjanda og einnig mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundi Einari Daðasyni, fyrir góðar umræður hér í þingsal í dag. Heimsfaraldurinn hefur vissulega haft víðtæk áhrif á börnin okkar og ungmenni. Það er mín skoðun að mikilvægt sé að taka sérstaklega utan um þennan hóp, rétt eins og hefur verið gert í faraldrinum, en við þurfum að stíga enn fastar til jarðar. Við þurfum að takast á við eftirköstin sem við vitum öll að munu koma. Rannsóknir sýna neikvæð áhrif á andlega heilsu nemenda og það bara liggur fyrir að við verðum að eiga við þetta á næstu árum. Í byrjun faraldursins lá fyrir að úr vöndu var að ráða. Það er mín skoðun að stjórnvöldum og raunar samfélaginu öllu hafi tekist vel upp í ljósi aðstæðna, sér í lagi í samanburði við önnur lönd. Sem fyrrverandi stjórnandi menntastofnunar finnst mér aðdáunarvert hversu vel kennurum og starfsfólki skóla tókst að halda faglegu skólastarfi gangandi í ljósi íþyngjandi aðgerða í samfélaginu. Stefna stjórnvalda hér á landi hefur byggst á bestu fáanlegu vísindum en einnig rýni, samtali, varfærni og reynslu sem sannarlega hefur byggst upp yfir tíma. Ég hef sérstakar áhyggjur af framhaldsskólanemendum okkar. Framhaldsskólaárin eru ekki bara mikilvæg fyrir menntun þjóðarinnar heldur einnig sá tími þar sem ungt fólk kynnist fjölbreyttu félagslífi sem því miður hefur legið niðri að mestu í faraldrinum. Ég treysti því að við mætum áfram þeim neikvæðu áhrifum sem heimsfaraldurinn hefur orsakað með æðruleysi og setjum stuðning við börnin okkar og unga fólkið í fyrsta sæti.