152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

afléttingaráætlun stjórnvalda, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:24]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir að draga hér fram það álag sem er augljóst að hefur verið um langan tíma og er farið, eðli máls samkvæmt, að taka á. Það er eiginlega ótrúlegt að horfa til þess að þetta hafi staðið í tvö ár, með misjöfnu álagi eftir erfiðleikastigi í þeim bylgjum sem við höfum farið í gegnum. Og það er rétt, þetta hefur hægt á annarri starfsemi. En þó verð ég að segja að það hefur tekist alveg ótrúlega vel með þrautseigju, vissulega, og þolgæði og útsjónarsemi starfsfólks og stjórnenda spítalans að halda uppi annarri þjónustu. En það hefur sannarlega hægt á. Það hefur sérstaklega hægt á í skurðaðgerðum en þá hefur verið reynt að flokka hvað eru bráðaaðgerðir o.s.frv. Ég held að það hafi tekist með ólíkindum vel miðað við þær aðstæður sem við erum að kljást við í Covid. Göngudeildin er jafnframt búin að sýna afar mikla útsjónarsemi. Það blasir við að það sem hefur hjálpað okkur verulega núna á seinni stigum er góð bólusetningarstaða og meðferð Covid-göngudeildar, þar sem verið hafa 9.000–10.000 manns undanfarnar vikur, þar sem 25–30 manns koma daglega, sem eru við það að leggjast inn, og fá vökva í æð og lyf. Þeim er haldið frá því að leggjast inn til að teppa ekki of mikið inni á spítalanum. Það hefur gengið alveg ótrúlega vel.

Varðandi þær aðgerðir sem farið hefur verið í nú nýlega til að fleyta okkur í gegnum þetta, er að gerðar hafa verið tímabundnar breytingar á verkskipulagi, viðbótarvinnuframlag greitt og samið hefur verið við einkaaðila um að koma inn og hlaupa undir bagga þar sem álagið er mest í fanginu á spítalanum. Og svo hefur verið aukaaðstoð frá björgunarsveitum, frá öðrum sjúkrastofnunum og hefur verið feikilega góð samvinna þar á milli til að halda þessu gangandi. Það hefur gengið og við ráðum við þessa stöðu.