152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

afléttingaráætlun stjórnvalda, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:27]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra kærlega fyrir að eiga þetta samtal við þingið. Það er til mikillar eftirbreytni og má bæta í þegar fram í sækir. Það er auðvitað gleðilegt að við stefnum hér í afléttingaráætlun. Ég hef þegar gert það að umtalsefni og vil gjarnan endurtaka það hér að ég hef ákveðnar áhyggjur af því að það virðist samt vera þannig að það sé auðveldara að taka frelsi frá fólki en að skila því aftur og það þó þegar gögn benda til þess að það sé kannski ekki endilega nauðsynlegt. Ég tel að það sé eitthvað sem við verðum að hafa í huga. Að því sögðu — það er auðvitað af mörgu að taka hér en mig langar til að gera að sérstöku umtalsefni við ráðherra það sem mér hefur fundist fara kannski frekar lítið fyrir í almennri umræðu um þessa afléttingaráætlun og tímaramma hennar sem eru aðgerðir á landamærunum. Ég vil þá bara hreinlega byrja á að spyrja ráðherra hver séu rökin fyrir því, sem mér finnst hafa farið lítið fyrir, að ekki er verið að skoða að létta á þeim takmörkunum hraðar þegar staðan er sú að við vitum um stöðu faraldursins og vitum að staðan er kannski ekki eins hættuleg og mátti vænta fyrir einhverju síðan og, ef maður leyfir sér að orða það þannig, þegar smitin í samfélagi okkar hér eru það mikil og mörg án teljandi hættu. Af hverju, eins og ég skynja það, er ekki verið að skoða með meira afgerandi hætti afléttingar á landamærum?