152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

afléttingaráætlun stjórnvalda, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:29]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Hv. þingmaður kom hér fyrst að því að það kunni að vera þannig að auðveldara sé að setja á en taka af þegar kemur að frelsinu. Ég ætla ekkert að fullyrða um það. Ég held að það geti verið ýmislegt sem útskýrir það en ef við tengjum það þeirri skyldu heilbrigðisráðherra að skoða nauðsyn hverju sinni í heildstæðu mati þá myndi ég vilja svara þessu þannig að það er ekki endilega víst þegar þetta heildstæða mat fer fram að þær aðstæður sem uppi voru þegar við settum á harðari samkomutakmarkanir leiði sjálfkrafa til þess að þeim sé aflétt vegna þess að staðan getur breyst svo á þessum tíma. Þetta hef ég rekið mig á eiginlega daglega í þeirri viðleitni — eins og ég sagði í upphafsræðu minni þá hefur þetta svolítið snúist við. Maður kemur inn í hvern dag og ætti raunverulega að segja: Hvernig getum við haft þetta, aflétt eins miklu og við mögulega getum? En við verðum alltaf að taka mið af stöðunni hverju sinni.

Þá kemur að landamæraaðgerðum. Það er landamærahópur að störfum, sem er bæði heilbrigðisráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, forsætisráðuneyti, sem skoðar þetta jöfnum höndum og reglurnar sem síðast voru settar áttu að gilda til 28. Það er verið að taka saman minnisblað um samanburðinn við allar aðrar þjóðir. Mér sýnist eftir að hafa aðeins séð inn í þetta að það sé mjög sambærilegt sem við erum að gera og síst strangara en víða annars staðar. En við verðum jafnframt (Forseti hringir.) að taka þetta í þessu heildstæða mati um afléttingu. Ég held að fyrirsjáanleikinn fyrir ferðaþjónustuna skipti hér mjög miklu máli.