152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

afléttingaráætlun stjórnvalda, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:31]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör og ég tek heils hugar undir að fyrirsjáanleiki ferðaþjónustunnar eins og hægt er skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli. Hæstv. ferðamálaráðherra orðaði það þannig á dögunum að auðvitað væri ofboðslega mikið hagsmunamál fyrir ferðaþjónustuna að vera, ef ég leyfi mér að orða það, í flútti við löndin í kringum okkur til þess að við værum samkeppnishæf gagnvart þeim sem væru að huga að ferðalögum. Í því samhengi má nefna að löndin í kringum okkur eru einmitt að huga að því að létta á aðgerðum sínum á landamærunum eða stefna að því á næstu dögum og vikum. Þess vegna er ég nú hér að endurtaka þessa spurningu mína. Það eru svo gríðarlegir hagsmunir undir, bæði fyrir ferðaþjónustuna og þá landið í heild að ég myndi halda að í því ljósi væri eðlilegt að við myndum kannski vera okkur meðvitaðri um þennan anga málsins.

Mig langar í því samhengi bara að lokum að fá að nefna, því að ég veit að það er margt í mörgu í þessu og hefur verið hingað til og verður áfram sem ég hef mikinn skilning á, að fyrir um tveimur vikum síðan kom Alþjóðaheilbrigðismálastofnun Sameinuðu þjóðanna, WHO, fram með þá skoðun sína að aðgerðir eða mjög miklar takmarkanir heilt yfir á landamærum séu ekki gagnleg aðferð gegn ómíkron-afbrigðinu heldur geti þvert á móti valdið miklum efnahagslegum og félagslegum skaða. Ég vildi nú bara fá að halda þessu sjónarmiði á lofti líka á meðan ég óska hæstv. ráðherra mikils og góðs og öflugs gengis í sinni afléttingaráætlun svo að við getum öll sem best haldið haus þegar við komum út úr þessu öllu saman.