152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

afléttingaráætlun stjórnvalda, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:43]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni innleggið og eins og hv. þingmanns er von og vísa þá var þetta allt að því ljóðrænt. Ég gæti verið með einhverja auma tilburði til að botna það en ég ætla að láta það vera að sinni. Ég þarf svo miklu meiri tíma í að setja saman tvær línur en svo. Mér fannst hv. þingmaður draga fram mjög vel þessa tækni sem við höfum haft til að taka sýni. Þetta var sérlega íþyngjandi fyrir börn. Sem betur fer þá þróum við hlutina hratt. Við eigum mikið af góðu vísindafólki og próf sem hafa dugað til þess að taka munnvatnssýni. Ég er sannfærður um að þegar fram í sækir, nú er verið að setja á stofn í Evrópu svona sameiningarbatterí til að halda utan um hlutina og vinna að þessum málum til framtíðar litið, verði samvinnan skýr og formuð á milli þjóða í því hvernig við tökumst á við svona vá þegar fram í sækir, þegar kemur að því að afla gagna, bóluefnabúnaðar og tækni. Ég bind vonir við að það muni efla okkur og innan lands jafnframt þegar fram í sækir.