152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

afléttingaráætlun stjórnvalda, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:45]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Strax haustið 2020 var ljóst að þetta var ekki V-laga bylgja eins og allir vonuðust eftir og það að bregðast við jafnóðum, eins og ríkisstjórnin gerði, þýddi að það var í rauninni aldrei neitt langtímaplan. Það að skella inn fjármunum í nýsköpun og vonast til þess að allt leystist af sjálfu sér er ekki alveg, ef við horfum í baksýnisspegilinn, það sem við hefðum átt að gera.

Nú hefur hæstv. fjármálaráðherra einmitt talað um að það sé lögskylda að aflétta takmörkunum en það hefur verið það allan tímann, lögskylda stjórnvalda að útskýra af hverju þau leggja í takmarkanir. Til þess að stjórnvöld geti útskýrt af hverju það þarf að fara í takmarkanir þá þurfa að vera til einhvers konar áætlanir um afleiðingar takmarkana, til að lágmarka þær.

Þá langar mig að spyrja hæstv. ráðherra, af því að hann talar hérna um skynsamlegar afléttingar, t.d. úr 10 manns í 50, almennar takmarkanir, opnunartíminn til 23, en af hverju ekki 30 eða 100? Er það af því að ef takmarkanirnar yrðu 100 manns en ekki 50 myndi smitum fjölga um 200 sem myndi hafa áhrif á Landspítalann og valda enn meira álagi á heilbrigðisstarfsfólkið? Hvert er t.d. umfangið af því? Grunnspurning mín til hæstv. heilbrigðisráðherra er í rauninni: Getum við gengið að skjali sem hefur verið uppfært allan faraldurinn hjá stjórnvöldum í heilbrigðisráðuneytinu sem segir okkur hvaða afleiðingar aukið álag á t.d. heilbrigðisstarfsfólk eða nemendur hefur til lengri tíma? Hvaða afleiðingar (Forseti hringir.) hafa takmarkanirnar á samfélagið að öðru leyti (Forseti hringir.) en vegna Covid-19? Er slíkt skjal til (Forseti hringir.) sem hæstv. ráðherra getur lagt fram til velferðarnefndar t.d. og útskýrt fyrir okkur?

(Forseti (ÁLÞ): Þingmenn eru minntir á að virða tímamörk.)