152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

afléttingaráætlun stjórnvalda, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:48]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir stóra spurningu. Einfalda svarið við því hvort ég gæti lagt fram heildstæð gögn hér og nú er að líklegast gæti ég það ekki. Ég gæti hins vegar lagt í þá vinnu í samvinnu ráðuneyta að draga þetta saman og meta á milli. Ég held að hv. þingmaður hafi eiginlega svarað þessu í upphafi, hann benti á það rétta í þessu og við eigum bara að tala um þetta eins og þetta er. Þetta eru ekki mjög nákvæm vísindi þegar kemur að takmörkunum og nákvæmlega hvað gerist í fjölda í gegnum þennan faraldur. Eins og hv. þingmaður þekkir mjög vel þegar hann er að forrita og notar einfalda forritun, ef og þá, þá er þetta ekki alveg nákvæmlega þannig. Ég sé það hins vegar þegar ég reyni að rekja mig svolítið í gegnum einmitt með þessa klukkutíma til eða frá um það hvenær við lokum veitingastöðum eða beitum samkomutakmörkunum í fjölda eða eitthvað slíkt, að það hefur skapast einhvers konar tilfinning, þekking hjá sóttvarnalækni og sérfræðingum hans og í ráðuneytinu fyrir því hvað þetta þýðir svona nokkurn veginn í útbreiðslu smita. Það er mjög merkilegt að lesa í gegnum það. Ég sé það jafnframt núna í þessu nýjasta afbrigði, af því það sem raunverulega býr að baki því að þetta er ekki nákvæmt er hegðun okkar sjálfra, hvernig við erum eftir því sem líður á faraldurinn öruggari með eigin hegðun. (Forseti hringir.) Ég held að við munum í framhaldinu einmitt taka umræðuna þangað, upp á það hvernig við bregðumst við þegar svona skellur á.