152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

afléttingaráætlun stjórnvalda, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[13:09]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra svarið og ég geri mér svo sannarlega grein fyrir því að þetta er ekkert auðvelt verk, annars vegar að gæta að þeim tölum sem birtast hverju sinni og vera síðan með þrýsting um afléttingar. En ég verð bara að fá að segja það að mér finnst hægt farið í þessari afléttingu. Það miðar maður bara við tölurnar, af því að það er búið að vera að biðja okkur allan faraldurinn um að rýna í tölur, t.d. á spítalanum, og þær segja okkur þá sögu, finnst mér, að það sé hægt að fara hraðar í þetta. Ég vil líka nefna í þessu samhengi að þegar öllu var aflétt hér fyrir ekki svo löngu síðan þá töluðu ráðherrar ríkisstjórnarinnar mikið um að það væri litið til þess hver staðan væri á Íslandi, að við gætum gert hluti hraðar og betur en aðrir. En staðan hins vegar núna er sú að við erum að gera þetta hægar heldur en löndin í kringum okkur og þá er ekki nóg að segja bara: Við erum á öðrum stað í faraldrinum, þegar tölulegar upplýsingar á spítalanum (Forseti hringir.) gefa okkur aðeins aðra mynd. Þannig að ég árétta það að ég (Forseti hringir.) ber mikla virðingu fyrir því að þetta er ekki auðvelt verkefni en ég hefði svo sannarlega viljað sjá að þessi skref sem stigin voru (Forseti hringir.) væru ákveðnari og fastari fyrir og að þetta gerðist fyrr.