152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

afléttingaráætlun stjórnvalda, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[13:11]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á því að taka undir með hv. þingmanni þegar hann gerir þá kröfu að skrefin séu fastari fyrir, orðaði hv. þingmaður það, því það er mjög mikilvægt að það sé festa í kringum alla svona hluti. Það kann vel að vera að við þurfum að gera það betur. Hv. þingmaður sýnir þessu verkefni líka jafnframt mikla auðmýkt, þessari snúnu stöðu, vegna þess að þetta snýst ekki alfarið um spítalann. Blessunarlega er minna álag og álagið á gjörgæsluna virðist vera blessunarlega frá og jafnframt mjög alvarleg veikindi. En nú eru bara eiginlega allir innviðir, vegna útbreiðslu smita, í eilitlum vandræðum. Það hlutfall sem almannavarnir miðar við er 8% en við erum með hlutföll víða í mjög samfélagslega mikilvægum innviðum upp í 15%. Það er svolítið staðan sem við erum að kljást við dag frá degi, að láta þetta allt saman ganga upp þannig að við ráðum við stöðuna og við förum ekki of hratt í þetta. Nú hafa Norðmenn verið með jafnvel harðari takmarkanir en við. Þeir eru með fulla afléttingu 17. febrúar. Umræðan bæði í Noregi og Danmörku er svolítið frá vísindahliðinni, að það kunni að vera of hratt farið vegna þess að það er enn álag á innviði og heilbrigðisstofnanir. Við erum svona nokkurn veginn í þessum tímaramma þó. Ég ætla nú ekki að láta það koma fyrir mig að láta (Forseti hringir.) það fara í keppnisskapið á mér og vera á undan einhverjum, (Forseti hringir.) að vera ekki að reka lestina, eins og einhver orðaði það.