152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

afléttingaráætlun stjórnvalda, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[13:15]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni og samflokksmanni, Ingibjörgu Isaksen, fyrir mjög gott innlegg hér. Það styður við allt það sem við erum að gera hér í varfærnum skrefum. Ég veit að hv. þingmaður hefur sérstaklega góða innsýn í starf heilbrigðisþjónustu og heilbrigðiskerfisins og tek undir orð hennar í lok ræðu um hvatningu og hrós til heilbrigðisstarfsfólks okkar. Það er jafnframt þannig að við erum eðlilega með heilbrigðisþjónustu hér um allt land þó að Landspítalann hér í Reykjavík sé stór að umfangi og þar sé mesta álagið. Það sem hefur kannski breyst í þessum blessunarlega lægri tölum um innlagnir er að álagið hefur engu að síður aukist á Covid-göngudeildina í þetta mikilli útbreiðslu. En sem betur fer eru alltaf færri sem þurfa á innlögn að halda. Í gegnum faraldurinn hefur það líka reynst þannig að bylgjurnar hafa ekki komið alveg jafnt yfir allt landið. Þegar kemur að mönnun á hjúkrunarheimilum um allt land og heilbrigðisstofnunum, sem eru í senn sjúkraþjónusta, heilsugæsla og hjúkrunarheimili og sinna mjög fjölþættri þjónustu, þá trufla smit sem upp koma starfsemi og mönnun er jafnvel veikari, það eru færri. Þá má lítið út af bregða. Við þurfum að huga að öllu þessu og það er þá kannski enn frekar ástæða fyrir okkur að taka varfærnari skref þannig að við ráðum við þessa stöðu. Þetta er kjarninn í áhættumati sóttvarnalæknis.