152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

afléttingaráætlun stjórnvalda, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[13:30]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir hér þakka hæstv. ráðherra fyrir munnlegu skýrsluna. Ég er ekki mjög með hugann við afléttingaráætlunina sem slíka, hreinlega vegna þess að ég get ekki haft á henni pólitíska skoðun. Hún verður að byggja á vísindalegri aðferð og þekkingu okkar færasta fólks og ég tel mig vita að þessi hæstv. heilbrigðisráðherra, eins og sá sem á undan fór, taki ákvarðanir á þeim grunni.

Mig langar samt, sérstaklega í framhaldi af því sem hér kom fram í máli síðasta ræðumanns sem fór að tala um töpuð lífár, að biðja þingmenn að hugsa sig vel um áður en þeir koma hér upp og byrja að tala um hugtök eins og töpuð lífár án þess að hafa nokkuð fyrir sér í því hvað það þýðir. Sú umræða þarf að byggja á vísindalegum rannsóknum og þekkingu. Það eru fleiri faraldrar í gangi á Íslandi en heimsfaraldur Covid, m.a. sjálfsvígsfaraldur. Hann er hræðilegur og við þurfum að taka á honum eins og hægt er að gera. Við gerum það og munum gera það saman.

Hitt er að við erum komin á þá stund núna að mínu viti í heimsfaraldri Covid að við verðum að taka augun að einhverju leyti af stríðskostnaðinum, sem ríkissjóður ber vegna þeirra aðgerða sem hefur þurft að ráðast í og sæmileg samstaða hefur verið um, yfir á langtímaáhrifin og samfélagslegar afleiðingar þessa heimsfaraldurs. Þær þarf að rannsaka almennilega og ég kem hér upp til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi í hyggju að gera það eða standa fyrir slíkum rannsóknum.