152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

afléttingaráætlun stjórnvalda, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[13:32]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir innleggið. Ég ætla að leyfa mér að segja í upphafi ræðu minnar að mér finnst sú nálgun hv. þingmanns afar heilsteypt þegar hún segist ekki upptekin af afléttingaráætluninni sem slíkri heldur því á hvaða grunni þessar ákvarðanir eru teknar. Við horfum til þess, eins og lögin segja okkur og þingið hefur raunverulega ákveðið, að það sé byggt á grunni okkar bestu vísindamanna. Ég held að það sem stendur upp úr í öllu þessu ferli sé hvað við höfum haft vel grundvallaðar áætlanir frá vísindafólki okkar, hversu mikinn vilja það hefur sýnt, þrautseigju og úthald í gegnum þetta allt. Á sama tíma spilar auðvitað á móti, og við getum heldur ekki horft fram hjá því út frá alþjóðasamþykktum og stjórnarsáttmála, að við þurfum að horfa til frelsis, en faraldurinn er með þeim hætti að við þurfum að takmarka samkomur og líf fólks á fjölmörgum sviðum. Þá ber okkur jafnframt að horfa til þess að ganga ekki lengra en nauðsyn krefur. Þetta á við í gegnum viðureignina, en eftir því hvernig afbrigðin hafa þróast hefur matið á þessu sífellt reynst snúnara. Svo er ég auðvitað hjartanlega sammála hv. þingmanni að óháð því hvað gengur á í samfélagi okkar eru sjálfsvíg og geðheilbrigðismál nokkuð sem við þurfum alltaf að halda mjög vel og þétt utan um.