152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

afléttingaráætlun stjórnvalda, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[13:34]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Mig langar til að ítreka það sem ég sagði áðan um nauðsyn þess að við sem samfélag — að stjórnvöld beiti sér fyrir lýðfræðilegum rannsóknum á langtímaáhrifum heimsfaraldursins af því að þau eru svo margs konar. Við erum að sjálfsögðu upptekin af álagi á starfsfólk á vinnumarkaði, sérstaklega í heilbrigðisstéttum, félagsþjónustu og á kennarastéttina. Það álag er augljóst og það getur haft gríðarlega neikvæð áhrif ef við erum ekki með augun á því og grípum til aðgerða. Það þarf auðvitað líka, eins og rætt hefur verið hér í þessum sal, að huga sérstaklega að börnum og ungmennum og ég hygg að með því að fara eigi síðar en núna í góðar vísindalegar rannsóknir á því hver staðan er þá getum við tekið betri ákvarðanir um það hvernig við förum inn í framtíðina og hvernig við eigum við langtímaafleiðingar faraldursins, ekki bara á heilsu heldur líka samfélagslega.