152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

afléttingaráætlun stjórnvalda, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[13:39]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir mjög góðar spurningar. Þetta eru auðvitað spurningar sem við förum í gegnum hvern dag og á grundvelli sóttvarnalaga, sem snýr að meðalhófi og jafnræði. Í stóru myndinni byggir þessi afléttingaráætlun á áhættumati sóttvarnalæknis. Hún er að meginefni til það sem sóttvarnalæknir lagði til í minnisblaði til heilbrigðisráðherra. Spurningin um 500 manns, það var til að gæta samræmis og ég get dregið það fram að í tillögum sóttvarnalæknis var lagt til að hámarksfjöldi í verslunum yrði 200, en til að gæta samræmis við aðra þá viðburði sem sóttvarnalæknir lagði til um 500 manns var það hækkað í 500. Er þetta allt saman alveg hárnákvæmt og er auðvelt að gæta fyllsta samræmis í svona regluverki sem hefur þann megintilgang að draga úr áhættunni á of hraðri og mikilli útbreiðslu smita? Nei, það er ekki þannig og það skal viðurkennt. Þetta er líka mjög misjafnt eftir því á hvaða vegferð við erum, hvort við erum að tala um algjöra bælingu þegar við er að eiga veiruafbrigði sem veldur því að mjög hátt hlutfall þeirra sem veikjast þurfa að leggjast inn, veikjast alvarlega og þurfa á gjörgæslumeðferð að halda, eða hvort um er að ræða afbrigði sem smitast mjög auðveldlega og fer hratt og fer að valda annars konar vandkvæðum. Þá er það augljóst í þessu regluverki sem eftir stendur og við erum að vinda ofan af, að þar er verið að reyna að koma í veg fyrir mjög stórar samkomur. Munurinn á því að vera í leikhúsi og á tónleikum er sá að þar horfa allir í sömu átt og þar getur maður passað sig með grímu og annað, (Forseti hringir.) en á annars konar samkomum er samgangurinn með þeim hætti að (Forseti hringir.) hættan á smiti er meiri. Þannig er þetta metið jöfnum höndum og að ráðum okkar helstu sérfræðinga.