152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

afléttingaráætlun stjórnvalda, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[13:46]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Hér í dag, bæði í þessari umræðu og í fyrri umræðu, hefur mikið verið rætt um áhrif heimsfaraldursins á börn og í raun á geðheilsu allrar þjóðarinnar. Það fer ekki á milli mála að það er mjög mikilvægt að sálfræðileg endurreisn þjóðfélagsins eftir þessar hamfarir hefjist sem fyrst. Við höfum heyrt mikið um hvað hefur verið gert. En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um hvað hann ætli að gera. Spurning mín er því sú: Hvenær getum við átt von á aðgerðaáætlun frá hæstv. ráðherra um aukna sálfræðiþjónustu fyrir alla þá, börn og fullorðna, sem hafa liðið fyrir það hamfaraástand sem við höfum lifað við undanfarin tvö ár?