152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

afléttingaráætlun stjórnvalda, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:03]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir hans innlegg og spurningar. Fyrst að samstöðunni, bara svo við ljúkum því. Hv. þingmaður kom inn á orð mín í fyrri skýrslugjöf eða óundirbúnum fyrirspurnum, ég man ekki hvort það var. Engu að síður er það alveg í samræmi við þá skoðun sem ég hef á þessu mikilvæga hugtaki, samstöðu. Þegar búið er að taka ákvörðun þá er svo mikilvægt að við vinnum öll að því að sú ákvörðun gangi upp og skili tilætluðum árangri, að við vinnum öll í sömu átt með það. En það breytir ekki því að fólk kann að hafa alls konar skoðanir á því hvort ákvörðunin hafi átt að vera með öðrum hætti og við ríkisstjórnarborðið hafa auðvitað allir ýmsar skoðanir og það er tekist á og ekkert um það að segja. Ég held hins vegar að ef slík umræða heldur mjög fast áfram á mjög mismunandi vegu þá kunni það að grafa undan samstöðu. Ég hef ekki breytt þeirri skoðun minni. Ég fór yfir það áðan að mér finnst t.d. umræðan hér í dag, um leið og hún hefur verið mjög gagnrýnin, hafa verið yfirveguð.

Varðandi drög að frumvarpi sem nú er í samráðsgátt um ný heildstæð sóttvarnalög þá var aðkoma þingsins eitt af verkefnunum þar. Hér var horft mjög í mörgum þáttum til Danmerkur til að mynda. Ég held að það sé auðvitað þingsins að taka á þessu, bæði í umræðu hér í þinginu og í hv. velferðarnefnd, hvað varðar þennan afmarkaða þátt. En það eru mjög margir athyglisverðir, getum við sagt, vinklar í þessu nýja frumvarpi sem þingið þarf að fara vel yfir þegar það kemur hingað inn í þingið.