152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

sóttvarnalög.

247. mál
[17:19]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir hennar innlegg hér í andsvari. Þetta er eitthvað sem við þurfum að finna út úr, hversu langt er hægt að ganga og auðvitað hversu langt menn vilja yfir höfuð ganga. Mér finnst sjálfum rosalega áhugaverð umræðan sem á sér stað núna. Maður sér það, sem ég ætla reyndar að fara betur yfir í ræðu á eftir, í frumvarpi sem nú er í samráðsgáttinni, sem hæstv. heilbrigðisráðherra er búinn að leggja inn, að þar er talað um í greinargerð að þetta sé í raun og veru alltaf bara fagleg vísindaleg ákvörðun. Þetta er nánast skrifað eins og það sé engin pólitík í því, sem er auðvitað ekki rétt. Við erum orðin svo vön að hengja þetta allt á sóttvarnalækni, hann Þórólf, að margir halda að það sé engin pólitík í þessu. En auðvitað er þetta ákvörðun sem er tekin á vettvangi ríkisstjórnar og það er heilbrigðisráðherra sem ræður þessu og það eru nú heldur betur pólitísk átök innan ríkisstjórnarinnar um það hversu langt eigi að ganga. Mig langaði líka að spyrja hv. þingmann: (Forseti hringir.) Hvort eru þessar sóttvarnaráðstafanir pólitískar í eðli sínu eða faglegar eða sambland af þessu?