152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

sóttvarnalög.

247. mál
[17:34]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Mér finnst þetta vera pínu áhugavert mál af því að það er þegar lagaskylda fyrir stjórnvöld að rökstyðja ákvarðanir sínar og þrír nefndarmenn geta beðið um frumkvæðismál og kallað eftir gögnum, það er ekkert mál, og stjórnvöld verða að svara innan viku samkvæmt þingskapalögum. Ég veit ekki alveg hverju þetta bætir við. Það sem hefur eiginlega frekar verið vandamálið er að þrátt fyrir að við förum eftir þeim reglum sem við erum nú þegar með, að þriðjungur nefndar geti beðið um gögn frá stjórnvöldum eða hafið frumkvæðismál, þá er bara lokað á það eða ekki svarað eða svarað illa. Það er rosalega algengt. Málum er lokað með bókun og slíku, það er reynslan frá síðasta kjörtímabili. Kannski þarf sérstaka lagagrein til þess að gera þetta skýrara en ég sé ekki að það bæti einhvern veginn menninguna í kringum það hvernig beiðnum frá þinginu er svarað.