152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

sóttvarnalög.

247. mál
[18:01]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég skal alveg taka til mín þá sneið að þegar maður orðar hluti með þessum hætti og talar um eitthvert kaffispjall inni í þingnefnd þá má alveg túlka það sem svo að maður sé kannski að gera lítið úr því starfi sem fram fer í nefndinni. Það var ekki ætlun mín að gera það, ég var kannski að reyna að greina á milli þess og að hafa málið hér inni í þingsal, sem ég heyrði reyndar að hv. þingmaður er greinilega mjög skotin í að gera, miðað við það að hafa þetta inni í nefnd á vegum þingsins.

En ég myndi líka vilja spyrja hv. þingmann um annað. Núna er verið að tala um vísindin og hinar vísindalegu niðurstöður sem við eigum að láta liggja til grundvallar og vera fagleg í okkar nálgun og annað, en það eru auðvitað öll lönd að díla við þetta sama og þau grípa til mismunandi ráðstafana en horfa samt öll með einhverjum tilteknum hætti á vísindin. Tekur hv. þingmaður undir það að það sé orðin einhvers konar tilhneiging í samfélaginu (Forseti hringir.) til þess að líta svo á að vísindi og rök séu eitt og pólitísk umræða annað og að þetta tvennt sé einhvern veginn ósamræmanlegt? (Forseti hringir.) Ég hef ekki séð annað hér í þingsal og í nefndum þingsins (Forseti hringir.) en að þingmenn séu daginn út og inn, bæði stjórnarþingmenn og stjórnarandstæðingar, að hlusta á rök.