152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

sóttvarnalög.

247. mál
[18:29]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Athyglisvert að taka þátt í þessari umræðu og fylgjast með. Í Danmörku er staðan sú að endanlegt ákvörðunarvald um opinberar sóttvarnaráðstafanir hefur í raun verið fært yfir til löggjafans og auðvitað hefur það sína kosti og galla. Hér á Íslandi erum við að ræða frumvarp sem gerir ekki ráð fyrir annarri aðkomu löggjafans en þeirri að sóttvarnatakmarkanir séu kynntar af ráðherra fyrir einni tiltekinni þingnefnd sem fái svo í rauninni engu um það ráðið hvort eða hve lengi viðkomandi takmörkunum verður svo viðhaldið. Hv. þingmaður vitnaði hér áðan í greinargerð frumvarps heilbrigðisráðherra þar sem faglegum sjónarmiðum um sóttvarnir er stillt mjög rækilega upp sem einhvers konar andstæðu, það er gerður mjög skýr greinarmunur og þessu stillt upp sem andstæðum, annars vegar faglegum sjónarmiðum og hins vegar pólitík. Hér hefur jafnvel í þessari umræðu verið gengið svo langt að tala eins og það séu einhver stjórnskipuleg álitamál sem komi í veg fyrir það að Alþingi geti tekið ákvörðun um það að íþyngjandi ráðstafanir um mannréttindi borgara þurfi að bera undir þingið til staðfestingar. Það er nokkuð sem mér hefði aldrei dottið í hug. Alþingi er æðsta valdastofnun landsins, það er bara þannig. Mig langar að fá að spyrja hv. þingmann, af því að hann talaði nú svo skemmtilega og hélt svo ágæta ræðu að mig langaði að halda þessu samtali aðeins áfram í andsvörum: Hvernig komumst við á þennan stað, hvernig komst umræðan á þennan stað?