152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

skipulag háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis.

[15:39]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Það fer vel á því að virðulegur forseti eigi erfitt með að ná þessum nýju nöfnum á ráðuneytum. En ég vil kannski byrja á því að óska hæstv. ráðherra til hamingju með nýtt ráðuneyti sem er vikugamalt í dag. Mig langar að spyrja hann sérstaklega út í skipulag ráðuneytisins. Hæstv. ráðherra fór yfir það, í viðtali við Innherja á Vísir.is, að hún væri með nýja sýn á það hvernig hægt væri að haga störfum ráðuneytisins þannig að það sinni þjónustu fyrir almenning betur — allt mjög spennandi, verð ég að segja, og eitthvað sem við hljótum öll að stefna að. Í afgreiðslu á þingsályktunartillögu um skipulag Stjórnarráðsins töluðum við mikið um hvernig rífa þyrfti niður sílóin á milli ráðuneyta en hæstv. ráðherra ætlar að byrja á því að rífa niður sílóin innan ráðuneytisins eða sjá til þess að þau verði ekki reist.

Mig langar kannski í fyrri spurningu minni að spyrja að þrennu: Hæstv. ráðherra leggur áherslu á að störf verði ekki staðbundin nema nauðsyn krefji. Mig langar að spyrja hvort ráðherra telji sig með þessu vera að ganga eitthvað lengra en segir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, þar sem er einmitt sagt að störf hjá hinu opinbera eigi helst ekki að vera staðbundin nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega. Mig langar síðan að spyrja út í nýja skipuritið sem kynnt var nýlega. Hæstv. ráðherra segir að ráðuneytið sé nú frekar lítið og ekki mannaflsfrekt og mig langar að spyrja hversu mörg stöðugildi sé áætlað að verði innan þessa ráðuneytis þegar því verður endanlega komið á koppinn. Og vegna þess að hæstv. ráðherra ætlar að hverfa frá fagskrifstofum hefðbundinna ráðuneyta langar mig að spyrja hvernig það samrýmist 17. gr. laga um Stjórnarráð Íslands þar sem segir að ráðherra skuli skipuleggja (Forseti hringir.) aðalskrifstofu ráðuneytis með því að skipta henni upp í fagskrifstofur.