Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 35. fundur,  8. feb. 2022.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Meðaltal. Að meðaltali má segja að talsmenn ríkisstjórnarinnar séu úti á túni þegar þeir tala um meðaltal, þ.e. þegar þeir segja að þeir verst settu hafi að meðaltali aldrei haft það betra. Ruglið og bullið um meðaltalið sem vellur út um alla ganga og í öll myrk skot þessarar ríkisstjórnar er í einu orði sagt fáránlegt. Að meðaltali hafa fyrirtækin í landinu það mjög gott en samt, sem betur fer, er ríkisstjórnin að hjálpa þeim fyrirtækjum sem að meðaltali hafa það ekki gott heldur verulega slæmt og það með styrkjum og öðrum aðgerðum. Allt í lagi, fyrirtækin fyrst sem hafa það gott og svo er auðvitað fyrsta verk ríkisstjórnarinnar að hjálpa fólkinu sem verst hefur það vegna Covid-19 eða stórhækkaðrar verðbólgu. Nei, auðvitað ekki því að verst stadda fólkið, sem getur ekki mætt 80.000 kr. óvæntum aukakostnaði, þau sem hafa fengið 10.000 kr. hækkun um síðustu áramót en verða að borga 15.000–20.000 kr. hækkun á húsaleigu, hefur það svo ótrúlega gott að meðaltali. Þetta beiska og ótrúlega bragðvonda meðaltal í boði forystumanna þessarar ríkisstjórnar er hér með vísað beint heim til föðurhúsanna til inntöku með tilheyrandi ógleði og flökurleika. Að meðaltali er þessi ríkisstjórn óalandi og óferjandi fyrir verst settu borgara okkar ríka lands þar sem stór hópur á ekki fyrir mat, lyfjum eða klæði og á nú á hættu að missa húsnæði sitt eins og í bankahruninu. Þessi meðaltalsríkisstjórn er gjörsamlega vanhæf fyrir þá verst settu og á strax að hætta allri meðalmennsku og segja af sér. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)