Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 35. fundur,  8. feb. 2022.

fjarskipti o.fl.

169. mál
[14:50]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Þrátt fyrir að sitja ekki í umhverfis- og samgöngunefnd þetta tímabil, hef ég, eins og aðrir þingmenn, fylgst með þessu máli frá því að það kom upp í sumar, þessari fyrirhuguðu sölu á Mílu, og tengdi mjög við þann vandræðagang sem var hér milli stjórnarflokkanna þegar verið var að reyna að koma endurskoðuðum fjarskiptalögum í gegnum þingið. Þetta var eitt af þessum málum sem stjórnarandstaðan ýtti á með fulltingi sumra flokka. En þetta olli andstöðu annars staðar, mögulega vegna þess að þetta lenti í einhverjum hrossakaupum, talinn var fjöldi mála sem hver flokkur átti að ná í gegn frekar en að innihaldið væri skoðað. Afleiðingin varð sú að lögin voru ekki endurskoðuð og hér stöndum við nú.

Mig langar til að fara betur ofan í þá spurningu sem hv. þm. Helga Vala Helgadóttir bar fram um þörfina. Gagnrýni umsagnaraðla kemur úr áhugaverðum áttum og víða að, innan úr stjórnsýslunni, innan úr fjarskiptafyrirtækjunum, frá þeim aðilum sem best ættu að þekkja til og ættu að vera áfram um að hafa akkúrat þessa hluti í lagi. Gagnrýnin er meðal annars byggð á þeim grunni að ekki sé um heildarlöggjöf að ræða, ekki sé um heildarstefnu að ræða, og það sé tími til stefnu. Aftur komum við að því að það getur ekki verið eftirsóknarvert að við stöndum frammi fyrir því að einhverjar hugmyndir séu um sölu og hér sé verið að smíða sérstakan lagabút utan um það frekar en að haga því á hinn veginn, að viðskiptagerningar falli undir lög.

Mig langar til að spyrja, bara til að ég skilji þetta betur, af því að nú kemur málið til afgreiðslu á morgun: Af hverju þessi flýtir? Hvað er það nákvæmlega? Síðan langar mig til að bæta við og spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki áhyggjur, í ljósi þess að verið er að reyna að keyra þetta í gegn án heildarsýnar og heildarstefnu, af þeim víðtæku valdheimildum sem verið er að veita ráðherra (Forseti hringir.) og stjórnsýslunni án aðkomu — þeim víðtæku heimildum, í ljósi þess að það vantar stefnuna hérna.