Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 35. fundur,  8. feb. 2022.

fjarskipti o.fl.

169. mál
[15:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa umræðu, þetta er mjög gott. Væntanlega erum við topp þrjú í heiminum varðandi ljósleiðaravæðinguna og heimilin. Ísland ljóstengt sem títtnefndur hv. þm. Haraldur Benediktsson hefur stýrt undanfarin ár að mestu varðandi þar sem eru 6.000–7.000 tengingar. Svo höfum við mörg hver verið áhugasöm um minni staðina, þorpin og kannski 500 til 1.000 manna bæi og svo erum við að heyra um jafnvel stærri bæi, t.d. Vestmannaeyjar þar sem búa nú hátt í 5.000 manns. Þar hefur verið unnið frekar rólega í ljósleiðaravæðingu.

Það var áhugaverð umræða sem hv. þingmaður kom inn á varðandi kaupin á Mílu þar sem hefur verið boðað að erlendi fjárfestirinn sé með allt aðra hugsun á bak við fjárfestinguna kannski heldur en Síminn hefði getað staðið að. Það verður mjög fróðlegt að fylgjast með því. Síðan bara hvað við Íslendingar ætlum almennt að gera varðandi þá möguleika sem snúa að þessari fjárfestingu — sem ég er ánægður með að hv. þingmaður minntist á — fjárfestingu sem er tiltölulega léttvæg í samhengi hlutanna og hvað hún getur gert fyrir okkur og hreinlega breytt hlutum mjög víða. Ég er alltaf til í umræðu um þessi mál með hv. þingmanni sem við fáum kannski allt of sjaldan tækifæri til í þessum stól. En þetta eru hlutirnir sem ráða til um hvernig landið þróast og búsetan. Ég mun tala fyrir því eins og hv. þingmaður og vonandi við flest sem hér sitjum og vonandi tökum við fjarskiptamálið inni í umhverfis- og samgöngunefnd. Vonandi fáum við bara á næstu vikum að taka umræðu um þetta. Svo hefði ég getað tekið smá umræðu um netin, Tengi og síðan Snerpu á Ísafirði. En þetta er mjög (Forseti hringir.) áhugaverð og skemmtileg umræða.