Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Í morgun sat ég opinn fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar með hæstv. forsætisráðherra vegna samskipti hennar við Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar. Samskiptin fjölluðu um ákvörðun Persónuverndar þess efnis að fyrirtækið hefði gerst brotlegt við persónuverndarlög þegar blóðsýni voru tekin úr sjúklingum með Covid-19 á Landspítalanum án upplýsts samþykkis sjúklinganna. Kári Stefánsson hefur krafist þess í opnu bréfi til ríkisstjórnarinnar að hún, með leyfi forseta, „lýsi vanþóknun sinni á þeirri ákvörðun Persónuverndar að Íslensk erfðagreining hafi brotið lög með mótefnamælingunum og heiti því að vernda fyrirtækið meðan það leitar réttar síns fyrir dómstólum“.

Nú er það svo að Persónuvernd er sjálfstæð stofnun sem fer með mjög mikilvægt hlutverk mannréttindaverndar á Íslandi. Reyndar mætti segja að á tímum heimsfaraldurs sé mikilvægara en nokkru sinni fyrr að hafa sjálfstæðan eftirlitsaðila sem tryggir að vísindarannsóknir séu ekki framkvæmdar á fólki án upplýsts samþykkis þess og að vinnsla persónuupplýsinga fari eftir persónuverndarlögum til að vernda friðhelgi einkalífs borgaranna. Einmitt þess vegna er svo mikilvægt að hæstv. forsætisráðherra standi í lappirnar og láti ekki undan hótunum forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar og lýsi neikvæðri afstöðu sinni til efnisatriða í úrskurði Persónuverndar til að forða því að fyrirtækið hætti allri vinnu við skimanir á Covid-19. Okkur hæstv. forsætisráðherra greinir á um hvort svarbréf ráðherrans við bréfum Kára hafi farið yfir valdmörk ráðherra og inn á verksvið Persónuverndar. Sömuleiðis greinir okkur á um hvort bréfaskrifin hafi grafið undan sjálfstæði Persónuverndar. Eins setti ég fram þá spurningu á fundinum hvort ekki væri illa komið fyrir íslensku heilbrigðiskerfi ef það mætti alls ekki við því að Kári Stefánsson færi í fýlu. Um þetta og margt fleira áttum við hæstv. ráðherra orðaskipti á opnum fundi í morgun og ég hvet áheyrendur og þingmenn til að horfa á fundinn, sem er aðgengilegur á vefsíðu Alþingis. Ég hvet ykkur til að mynda ykkur ykkar eigin afstöðu í þessu mikilvæga máli. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)