Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það er afar mikilvægt að peningamálastefnan og stefnan í ríkisfjármálum dragi vagninn í sömu átt. Við höfum reynslu af því í íslensku samfélagi hvað getur gerst ef stefnurnar stangast á. Það er hlutverk Seðlabankans að halda verðlagi sem stöðugustu. Aðgerðir hans til að rækja það hlutverk sitt geta leitt til þess að ójöfnuður aukist, að aðgerðirnar hitti hópa samfélagsins fyrir með ólíkum hætti. Það er ekki hlutverk bankans að gæta að jöfnuði í samfélaginu. Það er hins vegar hlutverk okkar, kjörinna fulltrúa, að gera það. Stýrivaxtahækkun Seðlabankans, sem kynnt var í morgun, mun koma illa við þá tekjulægstu og þá sem verja nú þegar langstærstum hluta ráðstöfunartekna sinna í húsnæðiskostnað, fólk sem er í þeirri stöðu að mega ekki við óvæntum útgjöldum.

Í þessari stöðu eru margir einstæðir foreldrar, hópur innflytjenda, öryrkjar sem þurfa að treysta á greiðslur Tryggingastofnunar, fólk sem býr við fátækt, þeir 10.000 einstaklingar sem eru enn án atvinnu og ungar barnafjölskyldur í neikvæðri stöðu. Staða fólks á leigumarkaði er erfið og ótrygg, ekki síst nú um stundir þegar verðbólgan vex og leiga sem bundin er vísitölu hækkar sjálfkrafa. Verðbólgan og vaxtahækkanir verða til þess að húsnæðiskostnaður fólks með lágar og meðaltekjur fer enn lengra yfir viðmiðunarmörk af ráðstöfunartekjum. Það er einfalt að bæta húsnæðisbótakerfið okkar, bæði með vaxtabótum og leigubótum. Það er líka einfalt að bæta barnabótakerfið okkar. Það þarf einungis að stilla af eigna- og launaviðmið og skerðingarmörk. Kerfin eru til og það er hægt að bregðast við strax og það er reyndar nauðsynlegt að bregðast við strax. Það sem vantar hins vegar er pólitískur vilji meiri hlutans.