Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

gögn frá Útlendingastofnun .

[15:36]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem hér kom fram og lýsa áhyggjum af því hvernig ríkisstjórnin fer af stað hvað varðar samskipti við þingið og umgengni við lög sem hér eru sett. Staðan er þannig að Útlendingastofnun, að því er virðist að fyrirskipan dómsmálaráðherra, stendur í vegi fyrir því að Alþingi geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu við veitingu ríkisborgararéttar. Ráðherra hefur gengið svo langt í sinni málsvörn að tala um umsækjendur um ríkisborgararétt sem VIP-röð, eins og fólkið sem á sér þann draum að verða íslenskir ríkisborgarar sé eitthvert svona forréttindalið. Þetta er ljótt.

Svo birtist þetta virðingarleysi gagnvart löggjafanum og eftirlitsstofnunum hans skýrt við uppstokkun Stjórnarráðsins þar sem ráðherrar virðast telja sig þess umkomna að endurtúlka skýr ákvæði starfsmannalaga með alveg ævintýralegum hætti til að koma sér undan meginreglunni um auglýsingaskyldu við skipan og setningu í opinber störf og embætti. Þetta er alvarlegt (Forseti hringir.) og við hér á þinginu verðum að beita þeim tækjum og tólum sem við höfum til að setja ráðherrum skýr mörk.