Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

stjórn fiskveiða.

41. mál
[18:37]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vildi bara koma hingað upp og styðja þetta frumvarp um tengda aðila í sjávarútvegi. Þegar verið er að tala um þessa tengdu aðila, að það skuli ekki vera uppi á yfirborðinu hvernig tengslin eru, þá man ég alltaf eftir bankahrunið þegar ég komst í plagg þar sem verið var að sýna tengda aðila í fjármálageiranum. Ég hef aldrei á ævinni séð eins þéttriðinn kóngulóarvef; hugmyndaflugið í því hvernig hægt væri að búa til tengda aðila, og reyna líka að sjá til þess að þeir væru ekki tengdir saman, var alveg ótrúlegt. Ég segi fyrir mitt leyti: Þetta er frábært frumvarp. Vonandi fer það í gegn og vonandi förum við að læra það í eitt skipti fyrir öll að hafa allt uppi á yfirborðinu. Ef við getum ekki vitað nákvæmlega hverjir eru tengdir aðilar í fiskveiðikerfinu þá er ekki hægt að hafa eftirlit með því eins og á að gera. Einfalt mál: Allir tengdir aðilar upp á borðið og séð til þess að þeir sem eiga að vera með eftirlitið geti sinnt því á auðveldan hátt til að koma í veg fyrir of mikla samþjöppun á eina hendi.