Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

fjarskipti.

43. mál
[19:13]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmaður og framsögumaður og meðflutningsmenn þessa máls. Mig klæjar í að taka þátt í þessari umræðu með ykkur því að þetta er mál sem er mér mjög kært. Ég vil þakka fyrir framlagningu málsins og fyrir að vekja athygli á mikilvægi þess að hafa tryggt fjarskiptasamband á vegum úti. Ég hef í störfum mínum á undanförnum árum verið mikið á ferðinni og veit nokkuð um það hvernig landið liggur varðandi samband og slíkt og því miður er það gjarnan þar sem mest á reynir, ef það verða slys eða erfiðar aðstæður, ég tala nú ekki um að vetri til, það eru gjarnan svæðin þar sem sambandið skortir. Því miður fer það gjarnan saman að þar sem sambandið er verst þurfum við mest á því að halda. Ég veit að framsögumaður þekkir til þessa, hann ræddi um reynslu sína úr Norðausturkjördæmi, ég hef hana svo sem víða af landinu, við getum líka horft á Norðvesturkjördæmi sérstaklega í þessu.

Eins og hér hefur komið fram er þetta brýnt öryggismál. Þetta er spurning um búsetugæði, búsetuöryggi og almannahagsmuni og búsetujafnrétti. Það er spurning hvað við göngum langt í þessu, það eru stofnleiðir sem skipta máli og síðan er hægt að telja upp hina og þessa vegi. Öxnadalsheiðin er t.d. á erfiðasta kaflanum, þar sem ekki hefur alltaf verið gott samband. Vegurinn á Þverárfjalli sem getur líka verið torsóttur að vetri til, því miður vantar þar samband á mikilvægum svæðum. Vestan Holtavörðuheiðar þar sem gjarnan safnast snjór og eru erfið akstursskilyrði. Vatnaleið á Snæfellsnesi. Álftafjörðurinn, því ég var nú að mæla fyrir máli um Skógarstrandarveg og uppbyggingu hans, og vil minna á stöðuna þar, þar eru líka mjög hættulegar og erfiðar aðstæður. Fjölmargir vegir á Vestfjörðum. Og þegar maður keyrir upp með Staðará og efsti parturinn þar á leiðinni upp á Steingrímsfjarðarheiði, þar dettur sambandið líka út. Vegurinn um Arnkötludal sem tengir saman byggðir. Svona er hægt að halda áfram og nefna fjölfarna vegi þar sem skortir samband. Svo gætum við náttúrlega áfram rætt um mikilvægi sambands á fleiri vegum, það eru sveitavegirnir, safn- og tengivegirnir. Ég hlýt líka að nefna Árneshreppinn og mikilvægi þess að þar sé gott samband. Víða inn til dala og út til nesja. Skagafjarðardalir, dalir inn Húnavatnssýslur, innsveitir Borgarfjarðar. Dalasýsla, ég tala nú ekki um það. Þar fengum við þingmenn kjördæmisins núna ekki fyrir mörgum dögum brýningu frá Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur, íbúa þar, um mjög erfitt farsímasamband á því svæði og í Dölunum, þetta var ákall um það að við beittum okkur fyrir því að þar yrði gert betur. Hún rakti það m.a. að aðstæður væru því miður oft þannig að íbúum fyndust þeir ekki vera öruggir og að hlutir gætu endað á versta veg, hvort sem það eru slys eða vandræði tengd föstum, biluðum bílum í vondum veðrum á fjallvegum o.s.frv. Ákallið er að bregðast við og því miður er þetta víða staðan.

Þetta er gríðarlega mikið öryggismál og búsetuöryggi, svo ég nefni það aftur, og byggðajafnrétti skiptir auðvitað máli. Því miður var Síminn seldur á sínum tíma með grunnnetinu, ég taldi þá og tel enn að það hafi verið mistök. Við þurfum að tryggja það og núna þegar verið er að selja Mílu þá er þetta enn mikilvægara í umræðunni og við þekkjum það. Það verður að tryggja almannahagsmuni og að grunninnviðir séu til staðar fyrir alla landsmenn. Þetta þurfa stjórnvöld að tryggja. Ég veit að í frumvarpinu er sérstaklega verið að horfa til þessara meginleiða á þjóðvegum landsins og það á að vera í algjörum forgangi. En ég vil líka nefna hvað þetta skiptir miklu máli. Hér hefur almannavarnaatriði, Tetra-samband og fleira sem skiptir máli, verið nefnt.

Ég styð það mjög að við fylgjum þessu máli vel eftir og vildi bara sérstaklega koma hér og lýsa stuðningi við það. Þetta er mitt hjartans mál og vonandi sameinumst við um að stíga fleiri góð skref í þessa veru.