Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

opinn fundur með dómsmálaráðherra vegna gagna frá Útlendingastofnun.

[10:58]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hér er hlutunum enn og aftur snúið á hvolf að mínu mati. Ég hvet þingmenn til að skoða þau lög sem hér eru á bak við. Ég fór vel yfir þetta á klukkutímafundi með nefndinni í morgun, opnum fundi, sem ég vænti að margir hafi fylgst með hér innan dyra. Það er alveg skýrt að Alþingi veitir ríkisborgararétt. Það er alvarlegt þegar ráðherra og stofnunin eru sögð brjóta lög. Það er Alþingi sem setur lög. Það er alveg skýrt. Alþingi þarf ekki einu sinni þessar umsagnir frá Útlendingastofnun ef það kýs svo. (Gripið fram í.) Það getur bara tekið þessar umsóknir og afgreitt þær. (Gripið fram í.) Það er ágætt að hafa það í huga að kveðið er á um það í lögum hvaða vinnu stofnunin á að skila til Alþingis með þessum umsóknum, en það stendur hvergi í þeim lögum að sú vinna við umsóknir sem eiga að berast Alþingi eigi að fara fram fyrir röðina gagnvart öðrum umsækjendum. (Forseti hringir.) Og við þetta (Gripið fram í.) hefur umboðsmaður gert athugasemd. (Forseti hringir.) Við erum að fylgja hér gagnsæi og heiðarleika (Forseti hringir.) og jöfnuði milli umsækjenda, (Forseti hringir.) hvort sem þeir óska eftir því að fara stjórnsýsluleiðina eða að umsóknir berist til Alþingis. Það er það sem verið er að vinna eftir hér. (Gripið fram í.)