Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

vaxtahækkun Seðlabankans.

[11:27]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Já, mér finnst það til vitnis um að að formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra undanfarinna ára hafi ágætismetnað að nefna það hátt og skýrt að við eigum auðvitað að setja okkur það markmið að vera í samhengi við Norðurlöndin þegar kemur að vaxtastigi. Þar eru ákveðnir undirliggjandi þættir sem hafa mest áhrif og er ábyrgð í ríkisfjármálum mjög stór þáttur og sitjandi fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lagt höfuðáherslu frá árinu 2013 með hléi á einmitt þennan þátt. Það er út af því sem sú staða hefur komið upp undanfarin ár að við höfum verið með lægstu vexti í sögulegu samhengi. Það er þannig. Þegar við horfum á vaxtahækkunina í gær, sem fyrir mörgum var nokkuð fyrirséð, þá vitum við líka hvers vegna sú vaxtahækkun á sér stað. Það eru að hluta til ákvarðanir sem við tökum hér sem geta vissulega haft áhrif á það og (Forseti hringir.) samtal okkar við aðila vinnumarkaðarins með óbeinum hætti og aðgerðir sem alla jafna fylgja (Forseti hringir.) kjaraviðræðum. En það er líka launaþróun og það er kannski líka munurinn á Íslandi og löndunum í kringum okkur, (Forseti hringir.) vinnumarkaðsmódelið hér er ekki sambærilegt því sem er þar. Það er risastór þáttur í þessari stöðu.