Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

raforkumál.

[11:38]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra fyrir að koma til þessarar umræðu um raforkumál og stöðu þeirra. Hún hefur ekki farið fram hjá neinum umræðan um yfirvofandi orkuskort síðustu vikur og raunar mánuði. Ég vil því spyrja: Hverja telur ráðherrann haganlegustu leiðina til að bregðast við því, sérstaklega til skamms tíma? Forstjóri Landsvirkjunar segir þurfa að virkja 50% meira en þegar hefur verið gert og bendir þá á að næstu tíu árin séu um 300 megavattstundir ínáanlegar í fjórum tilgreindum verkefnum. Við fáum af því fréttir að skerðanleg orka sé skert um land allt, eðlilega þegar orka er ekki næg. Það orsakar, eins og við þekkjum, orkuframleiðslu með olíubruna með þeim umhverfisáhrifum sem af slíku hlýst. Allt bendir á köflum til þess að meintar áhyggjur af losun gróðurhúsalofttegunda séu meira í orði en á borði. Á sama tíma segir orkumálastjóri í viðtali um miðjan janúar, með leyfi forseta, „að tryggja verði að framtíðarraforka fari raunverulega í orkuskipti“.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvað þessi orð orkumálastjóra þýða að hans mati. Þýða þau að raforku, sem til staðar verður, verði stýrt til orkuskipta en ekki t.d. til atvinnuuppbyggingar sem félli ekki með beinum hætti undir markmið um orkuskipti?

Í dag mælir hæstv. ráðherra fyrir rammaáætlun og fagna ég því að hún sé komin fram þetta snemma, sem er mun fyrr en þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar gerði ráð fyrir. Hún er lögð fram óbreytt frá síðasta kjörtímabili. Hæstv. innviðaráðherra sagði í umræðu hér í þinginu nýlega að horft væri til þess að færa virkjunarkosti úr nýtingarflokki í biðflokk. Framlögð rammaáætlun, sem liggur hér frammi og verður mælt fyrir hér á eftir, ber þess ekki merki.

Því hlýt ég að spyrja: Er búið að uppáleggja fulltrúum meirihlutaflokkanna í umhverfis- og samgöngunefnd að gera þessar breytingar, þ.e. að færa virkjunarkosti úr nýtingarflokki í biðflokk, og þá mögulega ásýndarinnar vegna að færa einhverja kosti úr verndarflokki í biðflokk sömuleiðis? Það verður að halda því til haga að það eru allt önnur áhrif sem það hefur að færa virkjunarkosti úr nýtingarflokki í biðflokk en að færa kost úr verndarflokki í biðflokk.

Mig langar jafnframt að biðja hæstv. ráðherra að koma inn á hvar ráðherrann telur tækifæri til aukinnar raforkuframleiðslu liggja næstu tíu árin, því að það er krítískur punktur og tímarammi í þessu verkefni öllu saman gagnvart orkuskiptunum, því að atvinnuuppbygging geti gengið fram með forsvaranlegum hætti og síðan því að við verðum að gera kröfu um það að dreifikerfi raforku verði þannig að orkan sem til er nýtist sem best á sem skemmstum tíma. Ég nefni þetta sömuleiðis í því ljósi að samkvæmt mati forstjóra Landsvirkjunar tekur það líklega hartnær 20 ár áður en virkjanir, sem eru fyrst núna að komast á teikniborðið, fara að framleiða rafmagn inn á dreifikerfið, ef allt gengur bærilega.

Mig langar sömuleiðis að opna umræðu um það hvert mat stjórnvalda er varðandi töpuð tækifæri til atvinnuuppbyggingar landið um kring í ljósi takmarkaðrar orku og vandkvæða við afhendingu á tilteknum svæðum landsins, svo sem á Eyjafjarðarsvæðinu, Snæfellsnesi og Vestfjörðum, svo dæmi séu tekin. Því að það er auðvitað gríðarlega erfitt fyrir mörg landsbyggðarsvæðanna að vera í þeirri stöðu af afhendingargeta kerfisins sé ekki til staðar til að atvinnuuppbygging geti átt sér stað þar sem henni verður haganlegast fyrir komið ef afhending raforku væri ekki sjálfstætt vandamál.

Mig langar síðan til að biðja hæstv. ráðherra að koma inn á það hér í þessari umræðu, þó að það liggi fyrir í orkuspá og hefur svo sem verið komið inn á það annars staðar áður, mér finnst það skipta máli svona upp á samhengi hlutanna, hvert mat stjórnvalda er á því hver þróun heildarorkuþarfar landsins er til ársins 2040, sem er það ártal sem stjórnvöld setja sér sem markmið að Ísland verði orðið kolefnishlutlaust.