Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

raforkumál.

[11:53]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir þessa umræðu og hæstv. loftslagsráðherra fyrir að vera til staðar. Það er yfirvofandi orkuskortur. Minn orkuskortur stafar af veiru. Ég hef ekki náð upp orkunni eftir að ég fékk blessaða veiruna. En hver er afsökun ríkisstjórnarinnar fyrir orkuskortinum? Eru það loftslagsmálin? Ef það eru loftslagsmálin erum við þá ekki að gera akkúrat þveröfugt við það sem við ættum að vera að gera? Við erum brenna olíu vegna orkuskorts. Það hlýtur að vera svolítið absúrd. Á sama tíma erum við að tala um og selja orkukvóta til sóðanna, svo þeir geti mengað meira. En hver er lausnin? Ég hef hana ekki alveg í höndum en ég var í Færeyjum fyrir ekki svo löngu síðan og þeir eru að reyna að virkja sjávarföllin. Erum við að skoða það? Erum við að fylgjast með því hvað Færeyingar eru að gera? Ég er ekki viss. Það er a.m.k. eitthvað sem við getum farið að skoða.

Ég hef svolitlar áhyggjur af öðrum málum og það er orka til heimila og hvernig við höfum klúðrað því í gegnum ESB og orkupakka ESB. Ég vona að við förum ekki halda áfram að klúðra enn þá meira þar vegna þess að allt í einu vaknar maður einn daginn við það að maður er að borga sérstaklega fyrir dreifingu. Síðan eru allt í einu komin átta eða tíu fyrirtæki, milliliðir, sem ætla að fara að selja manni orku og svo ef einstaklingur passar sig ekki á því að velja sér fyrirtæki lendir hann í tvöföldum kostnaði og er sendur eitthvert þar sem er hreinlega níðst á honum í orkumálum.

Við þurfum að framleiða meiri orku og við þurfum að fara að framleiða og koma á gróðurhúsum þannig að við verðum sjálfbær (Forseti hringir.) í matvælaframleiðslu. Ég vona heitt og innilega að við förum nú að leysa þessi orkumál (Forseti hringir.) þannig að við þurfum ekki að brenna olíu, (Forseti hringir.) hvað þá að leyfa það að selja til kjarnorkuvera og kolabrennslu okkar hreinu orku.