Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[14:56]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er mjög mikilvægt að fá þetta fram hér við þessa umræðu að þegar við erum að tala um orkuþörf samfélags þá erum við að tala um orkuþörf almennings og fyrirtækja. Það skiptir svo miklu máli af því að verkefnið er þá að löggjafinn búi til þann ramma að raforkuöryggi sé fyrir hendi fyrir þennan hóp. Þess vegna þarf að forgangsraða í því í hvað orkan fer. Við leysum þetta ekki öðruvísi, alveg burt séð frá fjölda kosta, burt séð frá því hvað er hagkvæmt eða hvað við viljum setja meira inn í rammann. Við verðum sem samfélag og það er okkar skylda, skylda stjórnvalda, bæði framkvæmdarvalds og löggjafarvalds, að sjá til þess að almenningur í landinu, heimilin í landinu og fyrirtæki, önnur en stóriðja, hafi þann aðgang að raforku sem þau þurfa til að halda okkar samfélagi úti. Þess vegna finnst mér mjög gott að fá þetta staðfest hér. Orkustefnan er ágæt svo langt sem hún nær en nú ríður á að útfærslan fari af stað í lögum, sem sagt í nýjum frumvörpum og í lögum og auðvitað líka í rammaáætlun, þannig að hægt sé að einhenda sér í þetta mikilvæga verkefni. Það er auðvitað alveg rétt, eins og hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson tók undir hér áðan, að tíminn undanfarin ár hefur sannarlega ekki verið vel nýttur.